Sunday, September 27, 2009

Ný rannsókn á psoriasis

Óskað er eftir sjálfboðaliðum á aldrinum 18 ára eða eldri til að taka þátt í rannsókn á nýju lyfi gegn psoriasis


Tilgangur
Tilgangur rannsóknar er að meta öryggi rannsóknarlyfsins og áhri þess á einstaklinga með langvinnan skellupsoriasis. Aðalrannsakandi er Bárður Sigurgeirsson, húðsjúkdómalæknir. Rannsóknin fer fram á Húðlæknastöðinni, Smáratorgi 1, Kópavogi.

Framkvæmd
Þátttaka varir í 49 vikur og gert er ráð fyrir 15 heimsóknum á rannsóknarsetur á tímabilinu. Heimsóknirnar taka u.þ.b. 1 til 2 klst. Þér verður gefið annað hvort rannsóknarlyfið eða lyfleysa sem inniheldur ekkert lyf. Líkurnar eru 1 á móti 6 að fá lyfleysu með engu virku innihaldsefni. Ef sjúklingar lenda í lyfleysuhópnum og fá ekki bata er heimilt að færa þá í s.k.opinn hóp og gefa þem virkt lyf.

Greiðslur
Allur kostnaður vegna rannsóknarlyfsins og læknisheimsókna er þér að kostnaðarlausu, en ekki er greitt fyrir þátttöku. Hins vegar e rhægt að fá greitt fyrir ferðakostnað.

Hvar fæ ég frekari upplýsingar ?
Ef þú hefur áhuga á að taka þátt, vinsamlegast hafðu samband við hjúkrunarfræðing rannsóknarinnar í síma 520 4409 eða sendu tölvupóst á netfangið rannsoknir(hjá)hudlaeknastodin.is. Einnig er að finna frekari upplýsingar um rannsóknina hér á síðunni.

Tekið skal fram að einstaklingar sem svara auglýsingunni hafa á engan hátt skuldbundið sig til að taka þátt í rannsókninni. Ákveði þeir að taka þátt, geta þeir dregið sig út úr rannsókninni hvenær sem er, án þess að gefa sérstaka ástæðu fyrir ákvörðun sinni.

Rannsóknarleyfi
Rannsóknin hefur verið yfirfarin og fengið leyfi Lyfjastofnunar, Vísindasiðanefndar og Persónuverndar.

Við höfum sett upp sérstaka heimasíðu þar sem má fá allar upplýsingar um rannsóknina

Monday, March 30, 2009

Faraldur af sortuæxlum hjá ungum konum

Áberandi er hve sortuæxli eru algeng hjá konum yngri en 35 ára skv. tölum frá Krabbameinsfélagi Íslands. Á línurtitunum hér að neðan er tíðnin borin saman á milli Norðurlandanna. Þar kemur fram að fram undir 1990 er tíðni sortuæxla hjá ungum konum lægst hér á landi, en fer ört vaxandi eftir það. Á síðustu árum eru íslensku konurnar með nánast þrefalda tíðni miðað við hin Norðurlöndin. Þekkt er að útfjólubláir geislar er einn helsti áhættuþáttur í myndun sortuþæxla og þegar tekið er tillit til legu landsins koma þessar niðurstöður nokkuð á óvart. Hækkun hefur einnig sést hjá ungum karlmönnum, en hún er ekki eins áberandi.

Fyrir þá sem vilja kynna sér einkenni sortuæxla má gera það hér.

Stöð 2 birti frétt um málið og má nálgast fréttina hér að neðan:
stod2


Pasted Graphic

Pasted Graphic 2

Wednesday, March 4, 2009

Landlæknisembættið gefur út nýjan bækling um kynsjúkdóma

Pasted Graphic
Landlæknisembættið hefur gefð út nýjan bækling um kynsjúkdóma. Bæklinginn má nálgast með því að smella á myndina hér til hliðar. Bæklingurinn fer í varanlega geymslu á fræðslusíðunni. Eftirfarandi texti er tekinn af heimasíðu Landlæknisembættisins:

Nýr bæklingur um kynsjúkdóma

Út er kominn á vegum sóttvarnalæknis bæklingurinn Kynsjúkdómar – Smitleiðir, einkenni, meðferð, forvarnir. Bæklingurinn, sem er gefinn út bæði á prenti og í rafrænu formi, er saminn fyrst og fremst með þarfir ungs fólks í huga. Brýn þörf er á hentugu fræðsluefni um kynsjúkdóma fyrir þann aldurshóp enda er tíðni kynsjúkdóma, t.d. klamydíu, hæst meðal fólks á aldrinum 15–30 ára.

Umfjöllunarefni bæklingsins er, eins og nafnið bendir til, lýsing á smitleiðum kynsjúkdóma, einkennum þeirra og meðferð. Einnig er fjallað um hvernig hægt er að verjast kynsjúkdómum auk þess sem veitt eru svör við algengum spurningum. Þá er bent á greiningarstaði og hlekki þar sem finna má nánari upplýsingar. Bæklingurinn er 28 blaðsíður og er ríkulega myndskreyttur. Ritstjórn bæklingsins var í höndum Sigurlaugar Hauksdóttur verkefnisstjóra en útlit og myndir annaðist Auglýsingastofa Þórhildar.

Ástráður, félag læknanema, HIV-Ísland – Alnæmissamtökin og fræðslan Tölum saman – samskipti foreldra og unglinga um kynlíf ásamt fleirum sem standa fyrir fræðslu um kynlíf og kynsjúkdóma í skólum landsins munu aðstoða Landlæknisembættið við að dreifa bæklingnum. Einnig verða heilsugæslustöðvum og lyfjaverslunum sendir bæklingar til kynningar. Aðrir áhugasamir, jafnt stofnanir og einstaklingar, geta haft samband við Landlæknisembættið og fengið bæklinga senda eða nálgast þá á vefsetri embættisins.

Sóttvarnalæknir vonast til þess að bæklingnum verði vel tekið og hann geti orðið hvatning til þeirra sem vilja afla sér upplýsinga um kynsjúkdóma.

Sigurlaug Hauksdóttir
yfirfélagsráðgjafi og verkefnisstjóri

Friday, February 20, 2009

Raptiva tekið af markaði vegna aukaverkana

Evrópska lyfjastofnunin hefur tekið Raptiva af markaði vegna aukaverkana. Sjá nánar fréttatilkynninu annars staar hér á síðunni. Við ráðleggjum öllum sjúklingum sem eru á raptiva að hafa strax samband við sinn lækni.

Fréttatilkynning Evrópsku lyfjastofnunarinnar.

Thursday, January 29, 2009

Gömul aðferð til meðhöndlunar á psoriais virkar þegar nýju lyfin bregðast


“ Samkvæmt nýrri rannsókn frá húðsjúkdómalæknum á Mayo sjúkrahúsinu í Bandaríkjum, getur psoriasis meðferð með ljósum og tjöruáburði  („Goeckermans“ meðferð)  í sumum tilfellum unnið betur á psoriasis en hin nýju, svo kölluðu „biologisku“ lyf.

„Goeckermans“ meðferðin felst í því að bera tjöru á útbrotin ásamt því að gefa UVB ljósameðferð.

Á þessari rannsókn má sjá að þó að biologisku lyfin geti haft undraverð áhrif á psoriasis og aðra húðsjúkdóma má ekki vanmeta gömlu meðferðirnar eins og tjöruáburði og ljós.

Fyrir þá sem vilja kynna sér málið nánar þá má finna upphaflegu fréttina hér (á ensku).

Monday, January 26, 2009

Húðlæknastöðin setur upp kerfi sem sendir út SMS áminningu daginn fyrir heimsókn.

Það kannast allir við að erfitt getur verið að halda utan um alla fundi og heimsóknir til lækna og tannlækna. Það vill því stundum brenna við að ef heimsóknir til lækna gleymist ef bókað er  með löngum fyrirvara.

Af Þessum sökum setti Húðlæknastöðin nýlega upp kerfi sem sendi SMS skeyti til að minna á tímann. Skeytin eru send kl. 10 daginn fyrir áætlaða heimsókn. Kerfið var sett upp fyrri mánuði síðan og hefur almennt mælst vel fyrir. Þó hafa komið upp hnökrar, t.d. hætti kerfið skyndilega að senda út skeyti án nokkurrar skýringar. Einnig hefur viljað bregða við að þeir sem eru bókaðir á fleiri en einum stað, t.d. á skurðstofu og hjá lækni hafi fengið fleiri en eitt skeyti, en það stendur allt til bóta.

Friday, January 16, 2009

Við erum að uppfæra síðuna

Við erum að uppfæra síðuna. Sumir hlekkir eru óvirkir eða vísa á rangar síður. Vinsamlega sýnið þolinmæði.

Wednesday, January 14, 2009

Fleiri ungar konur hér með kynfæravörtur

Eftirfarandi frétt birtist í Morgunblaðinu 14.01.2009


Pasted GraphicPasted Graphic 1
Ragnheiður Alfreðsdóttir og Laufey Tryggvadóttir


Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur ingibjorg@mbl.is
UM 20 prósent íslenskra kvenna á aldrinum 18 til 25 ára hafa greinst með kynfæravörtur sem er langhæsta hlutfallið á Norðurlöndum. Þetta er niðurstaða könnunar meðal 15 þúsund íslenskra kvenna sem gerð var á árunum 2004 til 2005.

Íslenskar konur á þessum aldri höfðu einnig sofið hjá mun fleiri körlum en jafnaldrar þeirra annars staðar á Norðurlöndum, að sögn Laufeyjar Tryggvadóttur, faraldsfræðings hjá Krabbameinsfélagi Íslands.

»Fjöldi rekkjunauta er sá þáttur sem hefur langmest áhrif á hvort kona smitast. Íslenskar stúlkur voru með hæst algengi kynfæravörtusmits og hér var hröðust aukning á smiti og fjölda rekkjunauta. Hjá yngsta hópi kvennanna voru þeir yfir 12 hér á landi að meðaltali miðað við sjö annars staðar á Norðurlöndum. Þeir eru miklu fleiri nú en fyrir um 20 árum. Þetta ástand endurspeglar eitthvert hömluleysi eða misskilning á því hvernig á að hegða sér og það þarf að taka á þessu,« segir Laufey.

Kynfæravörturnar smitast fyrir tilstilli HPV-veira sem eru náskyldar þeim sem valda leghálskrabbameini, að því er Laufey greinir frá. »Þess vegna er mjög líklegt að smit af völdum HPV-veira sem valda leghálskrabbameini sé einnig mun tíðara hér.«

Vörturnar geta birst vikum eða mánuðum eftir kynferðislegt samneyti við sýktan einstakling og konurnar jafnvel verið einkennalausar, að því er segir í nýrri grein hjúkrunarfræðinga á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins. Bent er á að kynfæravörtusmit aukist bæði hjá konum og körlum þegar skapabarmar eða svæði umhverfis kynfæri eru rökuð vegna þess að við rakstur verði oft rof í húð sem auðveldi veirusmit.

Séu vörturnar ómeðhöndlaðar geta þær breiðst út, haldist óbreyttar en einnig horfið. Í 92 prósentum tilfella myndar ónæmiskerfi líkamans mótefni sem eyðir veirunni á næstu 18 mánuðum eftir smit.

»Líkaminn getur unnið á þessu eins og mörgum öðrum veirusýkingum sem við fáum en þetta getur líka orðið vandamál,« segir Ragnheiður Alfreðsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins, sem annað kvöld heldur fræðslukvöld um HPV-smit, afleiðingar þess og forvarnir.

Ragnheiður leggur áherslu á mikilvægi þess að konur sem byrjað hafa kynlíf komi í reglubundna leghálsskoðun frá 20 ára aldri þar sem HPV-smit er algengast meðal ungra kvenna.

Í HNOTSKURN

Könnunin á Íslandi var liður í könnun sem náði til 70 þúsunda norrænna kvenna. Alls höfðu 10,6 prósent kvenna á Norðurlöndum á aldrinum 18 til 45 ára greinst með kynfæravörtur. Sumar tegundir HPV-veirunnar valda kynfæravörtum en aðrar frumubreytingum í leghálsi.

Viðbót Húðlæknastöðvarinnar:

Ef þú hefur áhyggjur af kynfæravörtum getur þú leitað hjálpar og ráðgjafar á eftirtöldum stöðum:
Kynsjúkdómadeild Landspítalans í Fossvogi
Húð- og kynsjúkdómalæknar
Kvensjúkdómalæknar
Þvagfæraskurðlæknar

Einnig má finna grein um kynfæravörtur hér á síðunni: