Eftirfarandi frétt birtist í Morgunblaðinu 14.01.2009


Ragnheiður Alfreðsdóttir og Laufey Tryggvadóttir
Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur ingibjorg@mbl.is
UM 20 prósent íslenskra kvenna á aldrinum 18 til 25 ára hafa greinst með kynfæravörtur sem er langhæsta hlutfallið á Norðurlöndum. Þetta er niðurstaða könnunar meðal 15 þúsund íslenskra kvenna sem gerð var á árunum 2004 til 2005.
Íslenskar konur á þessum aldri höfðu einnig sofið hjá mun fleiri körlum en jafnaldrar þeirra annars staðar á Norðurlöndum, að sögn Laufeyjar Tryggvadóttur, faraldsfræðings hjá Krabbameinsfélagi Íslands.
»Fjöldi rekkjunauta er sá þáttur sem hefur langmest áhrif á hvort kona smitast. Íslenskar stúlkur voru með hæst algengi kynfæravörtusmits og hér var hröðust aukning á smiti og fjölda rekkjunauta. Hjá yngsta hópi kvennanna voru þeir yfir 12 hér á landi að meðaltali miðað við sjö annars staðar á Norðurlöndum. Þeir eru miklu fleiri nú en fyrir um 20 árum. Þetta ástand endurspeglar eitthvert hömluleysi eða misskilning á því hvernig á að hegða sér og það þarf að taka á þessu,« segir Laufey.
Kynfæravörturnar smitast fyrir tilstilli HPV-veira sem eru náskyldar þeim sem valda leghálskrabbameini, að því er Laufey greinir frá. »Þess vegna er mjög líklegt að smit af völdum HPV-veira sem valda leghálskrabbameini sé einnig mun tíðara hér.«
Vörturnar geta birst vikum eða mánuðum eftir kynferðislegt samneyti við sýktan einstakling og konurnar jafnvel verið einkennalausar, að því er segir í nýrri grein hjúkrunarfræðinga á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins. Bent er á að kynfæravörtusmit aukist bæði hjá konum og körlum þegar skapabarmar eða svæði umhverfis kynfæri eru rökuð vegna þess að við rakstur verði oft rof í húð sem auðveldi veirusmit.
Séu vörturnar ómeðhöndlaðar geta þær breiðst út, haldist óbreyttar en einnig horfið. Í 92 prósentum tilfella myndar ónæmiskerfi líkamans mótefni sem eyðir veirunni á næstu 18 mánuðum eftir smit.
»Líkaminn getur unnið á þessu eins og mörgum öðrum veirusýkingum sem við fáum en þetta getur líka orðið vandamál,« segir Ragnheiður Alfreðsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins, sem annað kvöld heldur fræðslukvöld um HPV-smit, afleiðingar þess og forvarnir.
Ragnheiður leggur áherslu á mikilvægi þess að konur sem byrjað hafa kynlíf komi í reglubundna leghálsskoðun frá 20 ára aldri þar sem HPV-smit er algengast meðal ungra kvenna.
Í HNOTSKURN
Könnunin á Íslandi var liður í könnun sem náði til 70 þúsunda norrænna kvenna. Alls höfðu 10,6 prósent kvenna á Norðurlöndum á aldrinum 18 til 45 ára greinst með kynfæravörtur. Sumar tegundir HPV-veirunnar valda kynfæravörtum en aðrar frumubreytingum í leghálsi.
Viðbót Húðlæknastöðvarinnar:
Ef þú hefur áhyggjur af kynfæravörtum getur þú leitað hjálpar og ráðgjafar á eftirtöldum stöðum:
Kynsjúkdómadeild Landspítalans í Fossvogi
Húð- og kynsjúkdómalæknar
Kvensjúkdómalæknar
Þvagfæraskurðlæknar
Einnig má finna grein um kynfæravörtur hér á síðunni:
Húð- og kynsjúkdómalæknar
Kvensjúkdómalæknar
Þvagfæraskurðlæknar
Einnig má finna grein um kynfæravörtur hér á síðunni:
No comments:
Post a Comment