Í dag var víða hlýtt, en hlýjast reyndist vera í Borgarfirði. Heiðríkja var og logn fram eftir degi. Hiti á Hvanneyri, Fíflholtum á Mýrum og Húsafelli mældist rúmlega 20 stig í dag, sem mun vera met dagsins samkvæmt mælum Veðurstofunnar. Í Skorradalnum fór hitinn hins vegar hærra og mældist hæst 21,8 gr kl. 15.15. Heiðskýrt var mest allan daginn og logn eins og sjá mátti á myndinni hér að neðan sem er fengin úr vefmyndavél í Borgarfirðinum.
Þegar heiðskýrt er á þessum árstíma er sólin býsna sterk og auðvelt að sólbrenna á skömmum tíma. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur benti á þetta í bloggi sínu svo og að gert er ráð fyrir heiðríkju í það minnsta næstu 7 daga. Það má því búast við áframhaldandi góðviðri með hlýindum og sterkri sól og því líklega best að hafa sólvörnina við hendina. Styrkur þeirra geisla sólarinnar sem valda sólbruna og húðkrabbameini er mældur með s.k. ÚF-stuðli (UV-index). Upplýsingar um hverning nota má ÚF-stuðuls sér til sólvarna má sjá hér. ÚF-stuðull mældist hæst 5,4 á höfuðborgarsvæðinu í dag. ÚF-stuðull 29.05.2012 Fjölmiðlar ráku augun í þessar staðreyndir og fjölluðu um og má sjá nokkra tengla hér að neðan.
Um 15% fullorðinna Íslendinga segjast hafa farið í ljós á síðustu tólf mánuðum, samkvæmt nýrri könnun Capacent Gallup fyrir samstarfshóp um varnir gegn útfjólublárri geislun. Dregið hefur verulega úr ljósabekkjanotkun undanfarin ár. Fyrir átta árum svöruðu 30% sömu spurningu játandi.
Tvöfalt fleiri konur en karlar fara í ljós og er ljósabekkjanotkun mest í yngstu aldurshópunum. Þeir sem fara í ljós á annað borð virðast fara mun sjaldnar en áður var. Nú fara aðeins 1,2% fullorðinna í ljós mánaðarlega eða oftar. Könnunin var gerð í apríl og var úrtakið 1380 manns á aldrinum 18-75 ára. Svarhlutfall var 64%. Samstarfshópur um varnir gegn útfjólublárri geislun hefur starfað síðan 2004 og meðal annars hvatt fermingarbörn til að fara ekki í ljós og átt þátt í að yngri en átján ára var bannað að fara í ljós. Að hópnum standa Geislavarnir ríkisins, Krabbameinsfélagið, Embætti landlæknis og húðlæknar. Nýlega hefur komið fram að samkvæmt gögnum Krabbameinsskrárinnar er farið að draga úr nýgengi sortuæxla í húð, bæði hjá körlum og konum.
Frekari upplýsingar veitir Þorgeir Sigurðsson, s. 440 8200
Á síðustu árum hefur komið fram fjöldi rannsókna þar sem sýnt hefur verið fram á tengsl psoriasis og hækkunar á blóðfitu. Kólesteról er mikilvæg blóðfita fyrir líkamsstarfsemi okkar en ef það er of hátt eykur það líkur á hjarta- og æðasjúkdómum. Ekki er þekkt hvers vegna of hátt kólesteról fylgir psoriasissjúkdómnum. Of háu kólesteróli fylgja engin líkamleg einkenni, en æðarnar geta skemmst sem getur leitt til hjarta- og æðasjúkdóma síðar á ævinni. Það er því mjög mikilvægt að greina kólesterólshækkun snemma þannig að hægt sé að lækka kólesterólið og draga þannig úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum.
Viðmiðunarmörk kólesteróls eru eftirfarandi: Æskilegt er að HDL kólesteról (góða kólesterólið) sé hærra 1,1 mmol/l og að LDL kólesteról (vonda kólesterólið) ekki hærra en 3,37 mmol/l.
Ef breytt mataræði bætir ekki kólesterólsgildin, eða ef gildi þitt er mjög hátt er rétt að leita ráðgjafar hjá hjartalækni, efnaskiptalækni eða heimilislækni.
Mjög stuttan tíma þarf fyrir Íslendinga til að sólbrenna. Í niðurstöðum rannsóknar sem birtast í Læknablaðinu kemur fram að á venjulegum degi í júní er hægt að fá fimmfaldan sólarskammt sem þarf til þess að húðin brenni.
Niðurstöðurnar eru kynntar í nýjasta hefti Læknablaðsins, en það voru læknarnir Bárður Sigurgeirsson og Hans Christian Wulf yfirlæknir Húðlækningadeildar Bispjeberg sjúkrahússins í Kaupmannahöfnsem hana framkvæmdu.
Rannsóknin miðaði að því að kanna styrk roðavaldandi geisla sólarinnar hér á landi og fóru mælingar frá á tímabilinu apríl til september á síðasta ári. Notaður var útfjólublár ljósnemi sem nemur aðeins roðavaldandi geisla. Nemanum var komið fyrir í Skorradal þannig að skuggi gat ekki fallið á hann frá aðliggjandi trjám eða öðru í umhverfinu.
Mælieiningin sem er notuð til að kanna hversu sterk sólin er og líkur á að fólk brenni kallast staðlaður roðaskammtur. Fjöldi staðlaðra roðaskammta sem sólin gefur frá sér á tímaeiningu er mælikvarði á hve mikið geislamagn sá sem er úti í sólinni í þann tíma hefur fengið á sig.
Í greininni segir um meðalmanninn:
Í byrjun sumars þolir dæmigerður Íslendingur með venjulega húðgerð 4 staðlaða roðaskammta á sólarhring. Síðar um sumarið hefur húðin dökknað og þykknað og þá hækkar talan upp í 5-6. Hjá þeim sem þola sólina illa eru samsvarandi tölur 1 og 2 roðaskammtar, en eftir það fer húðin að brenna.
Niðurstöður úr mælingu 2010. Í júní mældust að meðaltali 20 roðaskammtar á dag, en það var sólríkasti mánuðurinn:
Ef gert er ráð fyrir að einstaklingur í fríi sé úti í 8 klukkustundir á sólríkum degi, fari út klukkan 10, taki sér hvíld á milli 12 og 13 og sé síðan úti til klukkan 18, má áætla fjölda staðlaðara roðaskammta á slíkum degi. Miðað við þessar forsendur er um 24 staðlaða roðaskammta að ræða á sólríkustu dögunum, sem er nálægt fimmfaldur sá skammtur sem þarf til að húðin roðni. Ef miðað er við einstakling sem er í vinnu og tekur golfhring frá kl. 15-19 fær hann á sig 10 SRS, eða tvöfaldan þann skammt sem þarf til að sólbrenna.
Sé tekið tillit til þess að fölur Íslendingur þolir eingöngu fjóra staðlaða roðaskammta, er ljóst að flesta daga í júní er hægt að fá fimmfaldan skammt sem þarf til þess að húðin brenni, ef verið er úti allan daginn.
Undanfarin ár hefur húðkrabbamein verið mikið í umræðunni, enda hefur tíðni húðæxla í heild tvöfaldast á síðustu tíu árum. Hefur þessi aukning jafnan verið tengd við aukna notkun ljósabekkja, en í greininni kemur fram að minna hafi verið vitað um tengsl aukningarinnar við sól hérlendis. Sólargeislar hafi oft verið taldir veikir hérlendis í samanburði við önnur lönd, en sú fullyrðing hafi ekki verið byggð á gögnum:
Rannsókna er þörf á sólvenjum Íslendinga áður en hægt er að fullyrða um hve mikinn þátt sólin á Íslandi á í háu nýgengni sortuæxla hérlendis.
Það skal þó tekið fram að sumarið 2010 var óvenjugott á Íslandi. Júní var mjög sólríkur og hitamet voru slegin, en sumarið hefur ekki verið jafngott í ár. Það er því ekki hægt að alhæfa út frá niðurstöðum rannsóknarinnar. Samfelldar mælingar margra ára þurfa að liggja fyrir áður en hægt er að leggja endanlegt mat á styrk sólarinnar á Íslandi. Þá hafa ekki verið gerðar neinar rannsóknir á hegðun íslendinga hér á landi á sólríkum dögum og þyrftu slík gögn einnig að liggja fyrir, til að áætla hve mikla sól hinn dæmisgerði Íslendingur fær á sig að sumarlagi.
www.pressan.is Fjallað var um mælingarnar í kvöldfréttum RÚV 11.07.2011 Stöð 2 fjallaði einnig um málið
Vefstjóri var nýlega í Danmörku til að kynna sér átak Dana varðandi sólvarnir og húðkrabbamein. Þar í landi hafa menn ekki farið varhluta af aukningu húðkrabbameina. Átakið gengur út á að kynna fyrir almenningi einkenni húðkrabbameina og sólvarnir. Apótekin í samvinnu við Húðsjúkdómadeild Bispebjerg sjúkrahússins standa að átakinu. Gefnir hafa verið út bæklingar og apótekin eru einnig nýtt til þessarar kynningar. Þá hefur stór trukkur verið innréttaður þar sem hægt er fá upplýsingar og fræðast um þessi efni. Á myndinni hér að neðan má sjá bílinn á Ráðhústorginu. Í bílnum hanga veggpjöld með upplýsingum, starfsfólk veitir upplýsingar, hægt er að fá sólnæmi húðarinnar mælt. Auk þess er hægt að fá tekna af sér s.k. útfjólubláa mynd, sem sýnir sólskemmdir í húðinni.
Ef þú vilt kynna þér nánar efni veggspjaldanna þá getur þú skoðað þau með því að smella hér. Þú þarft að hafa Acrobat reader til að skoða myndinar. Skjalið er 10Mb er því svolítinn tíma að hlaðast niður.
Trukkurinn á Ráðhústorginu Ljósnæmi húðarinnar mælt
Húðlæknastöðin hefur opnað laserdeild og mótttöku húðlækna á Akureyri. Stefnt er að lasermeðferð og læknamóttöku minnst einu sinni í mánuði. Lasermeðferð og móttaka sjúklinga fer fram á Læknastofum Akureyrar, Hafnarstræti 97, 6. hæð (“Krónan”). Tímapantanir fyrir viðtal hjá húðsjúkdómalækni er í síma 5204444 alla virka daga á milli 9 og 12 og á milli 13 og 16. Panta má tíma í lasermeðferð og fá nánari upplýsingar um lasermeðferð í síma 5204412. EInnig má fá upplýsingar á www.hudlaser.is. Algengustu ábendingar fyrir lasermeðferð eru óæskilegur hárvöxtur, roði og æðaslit í andliti, óæskilegar æðar á ganglimum, fínar hrukkur í andliti og minni háttar andlitslyfting. Ath að í flestum tilvikum taka Sjúkratryggingar Íslands ekki þátt í slíkri meðferð eða viðtölum vegna hennar. Þar eru þó ákveðnar undantekningar. Húðsjúkdómalæknarnir taka bæði á móti sjúklingum með almenn húðvandamál og þeim sem koma vegna lasermeðferðar.
Næsta dagsetning fyrir lasermeðferð og móttöku lækna er: 8 og 9 september 2011 Húðsjúkdómalæknir:Bárður Sigurgeirsson
Heilbrigðisyfirvöld hafa beint þeim tilmælum til lækna að fjölnota lyfseðlar séu mun æskilegri en símlyfseðlar og að ástand sjúklings og þörf á áframhaldandi meðferð sé metin minnst á árs fresti. Á Húðlæknastöðinni höfum við tekið upp eftifarandi viðmiðunarreglur:
Sjálfsagt er að endurnýja lyfseðla í gegnum síma og leiðbeina símleiðis ef hægt er fyrstu mánuðina eftir síðasta viðtal hjá sérfræðingi. Sé lengra en 12 mánuðir liðnir frá síðustu skoðun er rétt að sjúklingur panti nýjan tíma hjá sérfræðingi sem metur þá hvort þörf er á áframhaldandi lyfjameðferð og hvort ástæða sé að endurskoða lyfjameðferðina.