Monday, March 30, 2009

Faraldur af sortuæxlum hjá ungum konum

Áberandi er hve sortuæxli eru algeng hjá konum yngri en 35 ára skv. tölum frá Krabbameinsfélagi Íslands. Á línurtitunum hér að neðan er tíðnin borin saman á milli Norðurlandanna. Þar kemur fram að fram undir 1990 er tíðni sortuæxla hjá ungum konum lægst hér á landi, en fer ört vaxandi eftir það. Á síðustu árum eru íslensku konurnar með nánast þrefalda tíðni miðað við hin Norðurlöndin. Þekkt er að útfjólubláir geislar er einn helsti áhættuþáttur í myndun sortuþæxla og þegar tekið er tillit til legu landsins koma þessar niðurstöður nokkuð á óvart. Hækkun hefur einnig sést hjá ungum karlmönnum, en hún er ekki eins áberandi.

Fyrir þá sem vilja kynna sér einkenni sortuæxla má gera það hér.

Stöð 2 birti frétt um málið og má nálgast fréttina hér að neðan:
stod2


Pasted Graphic

Pasted Graphic 2

Wednesday, March 4, 2009

Landlæknisembættið gefur út nýjan bækling um kynsjúkdóma

Pasted Graphic
Landlæknisembættið hefur gefð út nýjan bækling um kynsjúkdóma. Bæklinginn má nálgast með því að smella á myndina hér til hliðar. Bæklingurinn fer í varanlega geymslu á fræðslusíðunni. Eftirfarandi texti er tekinn af heimasíðu Landlæknisembættisins:

Nýr bæklingur um kynsjúkdóma

Út er kominn á vegum sóttvarnalæknis bæklingurinn Kynsjúkdómar – Smitleiðir, einkenni, meðferð, forvarnir. Bæklingurinn, sem er gefinn út bæði á prenti og í rafrænu formi, er saminn fyrst og fremst með þarfir ungs fólks í huga. Brýn þörf er á hentugu fræðsluefni um kynsjúkdóma fyrir þann aldurshóp enda er tíðni kynsjúkdóma, t.d. klamydíu, hæst meðal fólks á aldrinum 15–30 ára.

Umfjöllunarefni bæklingsins er, eins og nafnið bendir til, lýsing á smitleiðum kynsjúkdóma, einkennum þeirra og meðferð. Einnig er fjallað um hvernig hægt er að verjast kynsjúkdómum auk þess sem veitt eru svör við algengum spurningum. Þá er bent á greiningarstaði og hlekki þar sem finna má nánari upplýsingar. Bæklingurinn er 28 blaðsíður og er ríkulega myndskreyttur. Ritstjórn bæklingsins var í höndum Sigurlaugar Hauksdóttur verkefnisstjóra en útlit og myndir annaðist Auglýsingastofa Þórhildar.

Ástráður, félag læknanema, HIV-Ísland – Alnæmissamtökin og fræðslan Tölum saman – samskipti foreldra og unglinga um kynlíf ásamt fleirum sem standa fyrir fræðslu um kynlíf og kynsjúkdóma í skólum landsins munu aðstoða Landlæknisembættið við að dreifa bæklingnum. Einnig verða heilsugæslustöðvum og lyfjaverslunum sendir bæklingar til kynningar. Aðrir áhugasamir, jafnt stofnanir og einstaklingar, geta haft samband við Landlæknisembættið og fengið bæklinga senda eða nálgast þá á vefsetri embættisins.

Sóttvarnalæknir vonast til þess að bæklingnum verði vel tekið og hann geti orðið hvatning til þeirra sem vilja afla sér upplýsinga um kynsjúkdóma.

Sigurlaug Hauksdóttir
yfirfélagsráðgjafi og verkefnisstjóri