Thursday, December 25, 2008

Húðlæknastöðin

Húðlæknastöðin var stofnuð í mars 1998. Starfandi læknar innan hennar eru allir húðsjúkdómalæknar.

Á Húðlæknastöðinni er sinnt öllum húðsjúkdómum svo sem exemi, ofnæmissjúkdómum húðar, psoriasis, eftirliti og meðferð húðkrabbameina, húðsýkingum ásamt mörgum öðrum sjaldgæfari húðsjúkdómum. Á Húðlæknastöðinni fer fram eftirlit með fæðingarblettum í því skyni að finna sortuæxli á frumstigi. Er í þeim tilgangi notuð afar fullkomin myndatækni sem hjálpar til við eftirlit og greiningu bletta.

Húðlæknastöðin hefur lengi tengst rannsóknum á húðsjúkdómum. Má þar nefna rannsóknir á sveppasýkingum, exemi, psoriasis, sortuæxlum ásamt þáttöku í lyfjarannsóknum.Læknanemar koma árlega á Húðlæknastöðina til að fylgjast með greiningu og meðferð húðsjúkdóma. Þetta er hluti af þeirra námi við Læknadeild HÍ.

Innan Húðlæknastöðvarinnar er starfandi ljósadeild með fullkomnum búnaði til meðferðar psoriasis, exema og fleiri húðsjúkdóma. Þar eru einnig tæki til meðferðar húðsjúkdóma sem bundnir eru við hendur eða fætur. Á ljósadeildinni er einnig sérstakt UVB laser tæki til meðferðar á þrálátum afmörkuðum húðsjúkdómum.

Laserdeild Húðlæknastöðvarinnar er búin nýjum og fullkomnum tækjum. Þar fer fram meðferð á rósroða, æðasliti í andliti, óæskilegum hárvexti, æðasliti á fótlimum, bólum (acne), örmyndun, ofholdgun í húð og fleira.

Thursday, September 25, 2008

Ný tæki á laserdeild

Húðlæknastöðin hefur fest kaup á nýjum og betri laser tækjum. Um er að ræða viðbót við þann tækjakost sem fyrir er. Laser tækin eru frá fyrirtækinu Palomar í Bandaríkjunum.

Nýju lasertækin gefa möguleika á að meðhöndla ýmsa húðsjúkdóma og öldrunarbreytingar í húðinni betur en áður hefur þekkst.
Fractional laser meðferð hefur í um áratug verið í þróun, en kom ekki á markað fyrr en nýlega. Meðferðin hefur verið viðurkennd af bandaríska lyfjaeftirlitinu (FDA).

Þessi tækni byggir á því að örfín göt eru gerð á húðina með lasergeisla. í kjölfarið fer í gang endurnýjunarferli í húðinni. Laser meðferðin hefur þannig jákvæð áhrif á húðina sem nýtist m.a við meðferð á hvers konar örum og sólarskemmdum. Laserinn hefur einnig mikil áhrif á öldrunarbreytingar bæði hrukkur og slappa húð.

Það er mikill kostur við þessa nýju meðferð að það tekur fólk stuttan tíma að jafna sig eftir meðferðina . Að jafnaði 2-4 daga. Með þessari meðferð er kominn raunverulegur valkostur fyrir fólk sem hefur áhuga á að hressa upp á húðina en hefur ekki áhuga eða tíma til að fara í skurðaðgerðir.

Það er von okkar að með þessum nýju laser tækjum getum við aukið þjónustuna og boðið upp á laser meðferð sem ekki hefur staðið til boða hér á landi áður.

GBS